Archive for July 2006

Ókeypis heróín til þeirra sem þurfa

July 30, 2006

sproyterom2.jpg

Ungliðahreyfingin í SV flokknum (systurflokkur VG) hefur sett fram hugmyndir sínar um að langt leiddir eiturlyfjafíklar eigi að fá ókeypis heróín meðan á afvötnunni stendur. Formaður ungliðanna, Lars Henrik Michaelsen, segir Svisslendinga og Þjóðverja hafa góða reynslu af heróíngjöfum til þeirra sem dýpst eru sokknir i fen notkunar efnisins. Meðferðastofnanir hafi betri yfirsýn yfir sjúklinga sýna og þar af leiðandi nái fleiri þeirra tökum á tilverunni ná ný. Þ.e færri falla meðan á meðferð stendur og fleiri nái að fóta sig í samfélaginu og geti stundað vinnu og séð fyrir sér.

Annars er það svolítið sérkennilegt vandamál sem norskt samfélag stendur frammi fyrir nú í sumar og það má rekja til góðrar tollgæslu. Tollarar hafa nefninlega aldrei lagt hald á meira heróín en nú í sumar. Samkvæmt markaðslögmálum þýðir það að verðið er nú helmingi hærra en í venjulegu “árferði” og þar af leiðandi fjölgar auðgunarglæpum neytendanna. Einnig hafa þeir fundið ný efni sem þeir kunna lítið með að fara og þess vegna hafa fleiri fíklar dáið vegna neyslu sinnar en nokkru sinni fyrr.

Lars Henrik heldur því fram að þeir neytendur sem fái frítt heróín frá ríkinu losni við að stunda þjófnaði, innbrot og vændi ásamt öðrum glæpum til að verða sér úti um efni. Bara með því koma í veg fyrir fylgiglæpi neyslunnar væri stór bót til betrunar fyrir samfélagið.

Formaðurinn segir ennfremur að tími sé kominn til að hugsa út nýjar og fjölbreyttari leiðir í baráttunni gegn lyfjamisnotkun og bendir á að ekki eru allir fíklar eins. Þeir séu jafn margbreytilegir og aðrir einstaklingar í samfélaginu og því nái það engri átt að halda að ein og sama meðferðin henti öllum þeim sem hafnað hafa í klóm eiturlyfjanna. Ekki dugi að gefa öllum metadon.

Í dag fá um 3500 Norðmenn metadon skammtinn sinn á degi hverjum frá ríkinu og nú vilja stjórnvöld fjölga gjafaskömmtunum um helming eða til 7000 einstaklinga. Þetta finnst SV-ungliðunum ekki sérlega smart hugmynd og fá stuðning frá Trond Henriksen, frægasta fíkli Noregs, sem sló í gegn í myndinni Stórir strákar gráta ekki. Hann er nú kominn af snúrunni og er forystumaður í baráttunni gegn eitrinu á götunni. Hann segir að ríkið hafi valið metadonlausnina vegna þess að hún sé ódýrari en aðrar lausnir og auðvelt að losna við neytendur þess af götunni. Sannleikurinn sé sá að eina lífsfyllingin og samvistir við annað fólk sem metadónneytendur fá sé þegar þeir skreppi í bæinn til að sækja skammtinn sinn. Metadon gerir menn bæði lata og slappa og þegar menn hafi fengið sitt fari þeir heim og leggi sig og bíði eftir næsta degi og næsta skammti í rúminu sínu.
Saamfélagið í nærmynd 27. júlí 2006

July 22, 2006

mjoeyri.JPGMjóeyri og Hólmaborg

40 ára Fermingarmótið okkar á Eskifirði, helgina 14. og 15. júlí sl. var einstakur viðburður. Þarna mættumst kringum 50 ungmenni í þremur árgöngum, 1951, 1952 og 1953 í gamla bænum okkar til að sýna sig og sjá aðra gamla og góða félaga frá barna og unglingsárunum. Það er engu logið þó maður kalli mótið fagnaðarfund.

Við Óli Jóns flugum austur á föstudeginum og hittum Guðný Önnu á Reykjavíkurflugvelli. Það var magnað að hitta geðhjúkrunarfræðingin þar enda höfum við ekki sést síðan löngu áður en hún varð slíkur fræðingur.

Þegar við lentum á Egilstöðum tók Árni í Bjarma á móti okkur Óla. Hann og Anna buðu upp á flottan bruns, með Hoffels-bjór, áður en við byrjuðum ganga frá Nýborgardiskinum í úmbúðirnar. Við prófuðum náttúrulega nokkra diska til að heyra hvort hljóðið hafði eitthvað breyst á ferðalaginu yfir hafið, frá Noregi til Austfjarða. Allt virkaði vel í tölvunni minni en annað kom á daginn þegar Árni skellti einum yfir geislan á heimilisgræunum sínum. Ekkert heyrðist. Hann fór með diskinn niður í kjallara og prófaði hann í öðrum tækjum þar. Ekkert hljóð á diskinum. Þetta var ekki lítið sjokk. Allir diskarnir, 65 að tölu, sem átti að selja til söfnunar fyrir hljóðbókum til handa vistfólki í Hulduhlíð, virtust ónýtir. En þegar betur var að gáð rann hættan hjá. Árni hafði snúið diskinum vitlaust í tækjunum. Það var ekki lítið brosað þegar kappinn sneri Nýborginni á réttan kjöl og munnhörpuspilið í Bítlalaginu, Should Have Known Better, ómaði um stofuna á Egilstöðum.

201186963_ad595c0705_m.jpg

Þegar diskurinn var klár lá leiðin niður á Eskifjörð þar sem ég vissi að pabbi gamli beið með lamslæri í ofninum. En við stoppuðum á Reyðarfirði þar sem við hittum athafnamanninn Eila í góðum gír. Hann sýndi okkur það sem hann hafði selgið eign sinni á þar í bæ áður en hann ók okkur út á Eskifjörð og sýndi okkur eignir sínar þar líka.

Svo var ég endanlega heima og borðaði þetta fína lambalæri með öllu tilheyrandi. Eftir matinn fékk ég gamla manninn til að rúnta með mig um bæinn svo ég gæti tekið nokkrar myndir. Við kíktum líka við hjá gömlum vinum eins og Önnu Hallgríms sem alltaf er jafn ung og falleg þó á níræðis aldri sé. Skruppum líka til Kidda Jóu Munda Stef og Nönnu þar sem bornar vöru sjö sortir á borð. Þar af þrjár tertur, flatbrauð með hangikjöti og þrjár smákökusortir. Ekki dónalegur desert það.

Laugardagurinn hófst með fagnaðarfundi í skólanum. Það voru ófá faðmlögin sem gengu meðal miðaldra ungmennanna þar og ekki laust við að tilfinningar tækju yfirhöndina á stundum. Get ekki annað sagt en að þetta hafi verið stór stund fyrir mig og sjálfsagt marga aðra. Það var virkilega flottur flokkur sem síðan rölti niður í Valhöll í súpu dagsins í boði Eila.

201298537_bfa852fd67_m.jpg

Og mikið djéskoti var gaman að fara í siglinguna. Held ég hafi ekki siglt út Eskifjörðinn síðan á loðnunni í febrúar 1975. Það blés orlítið að austan og byrjaði að gefa aðeins á bátinn þegar við vorum þvert af gömlu öskuhaugunum. En hvað gerir til þó menn blotni aðeins á besta aldri. Siglingin með Didda Alla var aldeilis frábær.

Það var líka virkilega gott að kíkja inn í Hulduhlíð eftir sjóferðina og heilsa upp á Gunsa Hall og Kidda í Múla. Það eru tveir höfðingjar sem ég kynntist vel í barnæsku og hefur þótt vænt um síðan. Get ekki annað en þakkað Gerði, frænku minni, Gunnarsdóttur fyrir að hafa fengið mig með sér þangað.

201186965_c7bff46dd9_m.jpg

Skemmtunin um kvöldið var að sjálfsögðu eins og við var búist. Frábær. Boðið var upp á stytta útgáfu að stúkufundi í Barnastúkunni Mjöll númer 51 ef ég man rétt auk þess sem 52 árgangurinn flutti leikverkið Álfar Vorsins. Get ekki ímyndað mér annað en allur bekkurinn verði tilnefndur til Silfurlampans eftir frækinn leiksigur í annað sinn á þessu stórkostlega bókmenntaverki sem fyrst var flutt af þessum sama árgangi á þessu sama sviði vorið 1960.

Það var einstaklega gaman að koma á Eskifjörð aftur eftir æði mörg ár og hitta alla gömlu skólafélagana sem flestir eru fluttir burt úr bænum. Á svona stundum fer ekki hjá því að maður finni til rótanna þaðan sem maður er upprunnin. Og víst er fjörðurinn fagur þegar hann skartar sínu fegursta. Það sem meira er. Hann hefur fríkkað við skógræktina sem gamli maðurinn hann pabbi hefur unnið að í áratug eða meira. Stór svæði sem einu sinni voru orfoka melar og urðir eru nú orðnir viði vaxnir. Verður fróðlegt að sjá skóginn eftir 20 ár.

Þar sem maður situr við tölvuna í Gjerdrum í konungsríknu Noregi og hugsar um liðna tíð er ekki laust við að maður fyllist svolitlum söknuði eftir félagskapnum um helgina. Í stuttu máli sagt var fermingarmótið okkar þokkalega gott. Mér skilst að á eldra máli þýði það einfaldlega frábært.

Kirkjan og Pólitík

July 22, 2006

aremark-kirke.JPG

Kirkjan á ekki að vasast í stjórnmálum. Það segir Roger, nokkur, Jensen fræðslustjóri miðstöðvar fyrir kirkjulega uppeldisfræði. Honum finnst að kirkjuþingin hafi nánast verið eins og samþykktunarstofnanir síðust árin.

Norska kirkjan hefur verið nokkuð áberandi í pólitískri umræðu og látið mál af ýmsu tagi til sín taka við misjafna hrifningu ráðamanna og einstakra leikmanna.

Meðal mála sem kirkjan hefur tekið fyrir er stefna stjórnvalda í málefnum flóttafólks og olíuvinnslan í Barentshafinu og úti fyrir Lófóten. Þetta finnst Roger Jensen ótækt og kallar á Martin Luther sér til fulltyngis. Í Katólskum sið var mikilvægast að forystumenn þjóðanna væru kristnir og stjórnuðu samkvæmt uppskriftum úr hinni helgu bók. Marteinn Lúther var á öðru máli sagði að ráðamenn þyrftu ekki endilega að vera kristnir en að þeir þyrftu nauðsynlega á skynsemi nað halda.

Menn vitna gjarnan í islam og finna þar sönnunina fyrir því að trúarbrögð og siðfræði eigi að halda sig langt undan stjórnmálunum.

En að sjálfsögðu eru ekki allt kirkjunnar fólk sammála Roger Jensen. Tina Strömdal Wik á sæti í kirkjuráðinu og tekur oft þátt í pólitískri umræðu á opinberum vetvangi. Hún telur að kirkjan eigi að sýna eigi að vera virk í samfélagsumræðunni. Hún telur það beinlínis hættulegt ef kirkjan verður einfaldlega þögull áhorfandi í nútíma samfélagi.

Roger Jensen gengur svo langt að segja að Gunnar Stålsett, fyrrverandi biskup í Ósló, hafi gengið alltof langt í pólitískri umræðu og jafnvel gert mistök vegna áhuga síns á stjórnmálum sem ekki eiga heima í kirkjunni.

En hvað var það sem biskupinn gerði rangt að mati fræðslustjórans. Jú. Hann talaði á fundum launþega og studdi þá í baráttunni fyrir bættum kjörum. Hann var einnig virkur í andstöðu Norðmanna, geng stjórnvöldum, um þátttöku landsins í Íraksstríðinu.
Samfélagið í nærmynd 20. juli 2006

Konur velja sjálfar lægri laun en karlar

July 11, 2006

images.jpg
Ætli þessi kona hafi sjálf valið launin sín?

“Þegar konur þéna minna en karlar er það vegna þess að þær hafa sjálfar valið það. Launamunur er í litlu samhengi við mismunun kynjanna”

Svo segir Geir Högsnes professor við Háskólann í Ósló. Hann telur að alltof lengi hafi launamunur kynjanna verið talinn orsakast af því að atvinnurekendur geri körlum hærra undir höfði. Hann segir að oft sé atvinnurekendum legið á hálsi fyrir að vera leiðir á barneignum kvenna á vinnumarkaðnum og þess vegna séu þeim borguð lægri laun. En rannsóknin sýnir að laun kvenna eru lægri af því að þær velja sjálfar að vinna minna.

Fjárfesting í vinnu
“Konur skerða samningsbundinn vinnutíma sinn þegar þær eignast barn. Það gera karlar ekki. Þar sem stöðu-og kauphækkanir ganga oftast til þeirra sem eru mest til staðar á vinnustaðnum leiði það til þess að með tímanum verði tímalaun karla hærri en kvenna”.

Prófessorinn hefur rannsakað launamun kynjanna í 18 ár og úrtakið er 100.000 launþegar sem vinna hjá aðilum norska vinnuveitenda sambandsins.

Geir Högsnes og félagar hans tveir við Háskólann, Trond Petersen og Andrew Penner hafa fundið út að munur á tímalaunum kynjanna í starfi hjá sama fyrirtæki sé ekki teljandi. Þeir segja þó að þegar barn komi til sögunnar sé merkjanlegur launamunur körlunum í vil. Þó hafi sá munur minnkað á síðustu árum. Á 9. áratugnum höfðu konur með 2 – 3 börn um 80 – 85% af launum karla sem áttu jafn mörg börn. En á árunum 1995 – 1997 hafi konurnar verið komnar upp í 95% af launum karla.

Könnunin segir að konur vinni 1 – 2 tímum minna við hvert hvert barn sem þær eignist.

Að sjálfsögðu eru ekki allar konur á einu máli með prófessornum. Beate Gangås, hjá jafnréttisráðinu segir að prófessorinn hafi ekki skoðað nægilega vel hvernig atvinnurekendur vinni kerfisbundið að því að halda launum kvenna niðri.

Samfélagið í nærmynd 6. júlí 2006

Sumarfrí Norðmanna

July 4, 2006

img_3306.JPG
Þú ert öruggur með þennan bíl í A-Evrópu og Frakklandi

Að sjálfsögðu eru Norðmenn fyrir löngu búnir að planleggja sumarfríin sín og á því er engin breyting þetta árið. En það eru þó stórar breytingar fyrirsjáanlegar á ferðaháttum þegna Haraldar konungs. Í sumar munu nefninlega fleiri Norðmenn ferðast til útlanda en um sitt eigið land. Það er í fyrsta sinn sem það gerist. Í ár er reiknað með að meira en ein milljón Norðmanna ferðist út fyrir landamærin og margir oftar en einu sinni, þ.e. þeir sem gjarnan skreppa í helgarferðir til Svíþjóðar og eða Danmerkur.

Og það eru ekki litlar upphæðir sem Norsarar láta liggja eftir sig í vösum útlendra kaupmanna. Í Fyrra eyddu þeir sem samsvarar 450 milljörðum ísl. kr í útlöndum og í ár er talið að upphæðin geti farið yfir 500 milljarða.

Norska ferðamálaráðið er í öngum sínum yfir þróuninni og skilur ekkert í afhverju Norðmenn snúa baki við ferðalögum innanlands. Helst kenna þeir lággjaldaflugfélögunum um hvernig komið er. Dettur ekki í hug að líta í eiginn barm til að velta markaðssetningunni fyrir sér eða hvort himinhátt verðlag í Noregi spilar inni í.

Hvert fara svo Norðmenn:
Norðmenn hafa alla tíð verið iðnir við kolann á Miðjarðarhafseyjunum, Möltu, Krít og mörgum grísku eyjanna og svo auðvitað á Spáni. Nú lítur út fyrir að breytt ferðalög séu framundan og ekki er hægt að kenna lággjaldaflugfélögum um þá breytingu. Nú er það nefninlega bíllinn sem verður farskjótinn og gömlu austur Evrópulöndin könnuð af þjóðveguinum.

Verð að segja að ég mæli eindregið með slíkum ferðalögum, fyrir fullorðna, enda höfum við varla ferðast öðruvísi síðan við settumst að í Noregi. Gott að hafa bílinn og geta tekið með sér það sem maður vill, gist þar sem maður vill og farið þangað sem maður vill.

En það eru ýmsir hlutir sem ber að varast. Fyrir barnafólk getur bílaferðalag í 30°C hita fljótlega breyst í martröð fyrir blessuð börnin. Lítið gaman að veltast um í aftursætinu þó svo maður geti horft á DVD eða lesið Ástrík.

Það eru líka fleiri ljón á veginum. Þeim sem eiga BMW, Bens eða VW Passat er ráðlagt að gæta að sér í löndum eins og Póllandi, Tékklandi og Frakklandi. Hvergi mun vera meira um bílþjófnaði en í þessum löndum og þessar þrjár bíltegundir eru vinsælastar hjá þjófunum.
Samfélagið í nærmynd 29.06.06

Fóstureyðingar

July 4, 2006

Nýlega var byrtar niðurstöður úr nýrri könnun um fóstureyðingar í Noregi. Könnunin leiðir í ljós að fóstureyðingar fara mikið eftir þjóðfélagsstöðu kvenna. Könnunin byggðist á því að fylgst var með 2000 konum frá því þær voru á tánings aldri og fram á þrítugsaldurinn.

•Átta prósent kvennanna hafa fengið amk eina fóstureyðingu. Eitt prósent þeirra hafa fengið tvær eða fleiri.
•Eftir því sem menntun kvennanna er meiri því minni líkur á fóstureyðingum.
•Dætur lítið menntaðra foreldra eru meiri áhættuhópur fyrir fóstureyðingar en konur sem koma frá “vel menntuðum” heimilum.
•Stúlkur sem alist hafa upp við ótryggt fjölskyldu líf, skilnað foreldra , lítið eftirlit í uppvextinum og misnotkun áfengis á heimilinu eru einnig stór áhættuhópur.
•Stúlkur sem alist hafa upp í Norður Noregi ( landsbyggðastúlkur) eru í meiri áhættu fyrir að fá fóstureyðingu en þær sem aldar eru upp í þéttbýlinu.