Archive for June 2006

Gamlir bílar

June 26, 2006

img_3886.JPG

Það er ekki langt frá því að vera sannleikur þegar maður talar um að það gamla er bæði best og flottast. Alla vega á það við þegar maður er svo heppinn að detta inn á fornbílarallý. Í blíðskapar veðri í Austfold um helgina sá ég yfir 30 vélknúin ökutæki á 4 hjólum. Sá elsti var frá 1914 og þeir yngstu frá árinu 1929.

Ef einhvern langar til að sjá myndir af vögnunum getur viðkomandi klikkað á: http://www.flickr.com/photos/95872249@N00/.

Advertisements

Að Skíta í Skóinn Sinn

June 12, 2006

Halldór.jpg
Að skíta í skóinn sinn var orðatiltæki sem Slabbi, sálugi, Djó hafði gjarnan um þá sem framið höfðu einhver heimskupör og bættu svo gráu ofan á svart með því að gera heimskuna ennþá heimskulegri þegar bæta átti fyrir fyrri vitleysur. Datt orð Slabba í hug þegar ég velti fyrir mér framsóknarkaplinum sem aldrei ætlar að ganga upp.

Það kom svo sem ekki á óvart að Halldór Ásgrímsson gæfist upp á að leiða flokk sinn. Undir formennsku hans hefur leið framsóknar bara legið niður á við og nú er svo komið flokkurinn er nánast að engu orðinn. Alla vega hvað varðar kjósendur en það bærist þó lífi sundurleitri þingmannahjörðinni og einn og einn miðstórnarmaður kvakar endrum og sinnum. Því miður.

Sóðaskapurinn í kringum flótta Halldórs úr formennskunni og forsætisráðuneytinu, sennilega í seðlabankann, er með ólíkindum. Það má vel vera að Halldóri hafi liðið vel undir handarkrika Davíðs í ríkisstjórninni og sækist nú eftir sama skjóli í Seðlabankanum. En að lýsa því, í laumi, að varaformaður hans, Guðni Ágústsson, sé óhæfur fromaður er nokkuð sem venjulegur maður ekki skilur. Af hverju var hann þá kosinn varaformaður á sínum tíma. Auk þess er Guðni sá maður sem hefur hvað sterkasta stöðu meðal hinna sára fáu kjósenda flokksins ásamt Kristni H. Gunnarssyni sem flokkurinn hefur margoft reynt að losa sig við. Það er hverjum manni orðið ljóst að formaðurinn og forsætisráðherrann hefur stjórnað flokknum með hjálp fámennrar klíku sem leggur á ráðin. Svo er formaðurinn svo smásálarlegur að hann fær sig ekki til að segja Guðna það sjálfur að hann vilji ekki sjá hann sem eftirmann sinn heldur sendir aðstoðarmenn sína í skítverkin. Og svo fær hann að sjálfsögðu stuðning frá Lómatjarnardrottningunni sem bæði ýlfrar og gjeltir og lýsir vantrausti á varaformanninn sem eftirmann formannsins. Heillandi vinnubrög, ekki satt.

En nú er Halldór sem sagt að hætta í stjórnmálum eftir 32 ár. Þá er það siður að bæði stuðningsmenn og andstæðingar kveði sér hljóðs og mæri mikilmennið. Það hefur ekkert skort á það eftir Þingvallayfirlýsingu Halldórs. En fyrir hvað er hægt að hæla Halldóri Ásgrímssyni. Hver eru verk hans og hvernig hafa þau bætt lífskjör almennings í lýðveldinu á Íslandi. Uppúr stendur að sjálfsögðu kvótakerfið sem er eitthvert óréttlátasta meðal sem neytt hefur verið ofan í þjóðina síðan dönsku einokuninni var þröngvað upp á landsmenn. Afleiðingin er sú, að sameiginleg auðlynd þjóðarinnar, er komin á fárra manna hendur og gert þá að auðkýfingum meðan almenningur heldur áfram að vinna tvær og þrjár vinnur til að framfleyta fjölskyldum sínum. Halldór átti í vandræðum að svara einfaldri spurningu frá einföldum bónda og dugnaðaraforki á pólitískum fundi á Reyðarfirði ekki alls fyrir löngu. Bóndinn spurði einfaldlega hvað Halldór hefði gert fyrir kjördæmið á stjórnmálaferli sínum og hvar hann og aðrir kjósendur flokksins gætu séð skóför hans í kjördæminu. Bóndinn fékk ekkert svar. Bara skammaræðu til baka frá ráðherranum sem hneykslaðist á fávisku og óréttlæti kjósanda síns gegnum öll þau ár sem ráðherrann skipaði framboðslista í Austurlandskjördæmi.
Það má líka öllum vera ljóst að Halldór Ásgrímsson hefur trauðla átt farsælan feril sem flokksformaður. Flokkurinn er í rjúkandi rústum illdeilna og óheilinda sem flestar eru runnar undan rifjum formannsins sjálfs og sauðahjarðarinnar sem honum fylgja að málum. Þá er besta að setjast aftur á skammelið undir fótum fótum Davíðs í Seðlabankannum er kólna tekur í haust. Þar fær hann frið fyrir óréttlátum og heimskum kjósendum meðan hann ornar sér við að telja og reikna erlendar skuldir þjóðarbúsins sem hann hefur átt drjúgan þátt í að haugað upp á 32 ára stjórnmálaferli.
Á einum stað í hinni helgu bók strendur; ”Þér eruð ekkert. Verk yðar eru engin. Andstyggilegur er sá er yður kýs”