Archive for January 2008

Fimm ára kennaranám og fjölgun í bekkjum

January 3, 2008

Nú loksins hafa Norðmenn fundið stórasannleikann í skólamálum sínum. Lengja skal kennaranámið í 5 ár og ekki útskrifa nema hæfa kennara. Þ.e. fólk sem lýkur námi og hefur einhverja hæfileika til að miðla fróðleik sínum og speki til nemendanna. Þetta gerðu Finnarnir og breyttu stígvélaverksmiðjunni sinni í verðmætasta fyrirtæki Evrópu. Þá getum við það og gert Statoil að verðmætasta fyrirtæki í heiminum.

jens-stoltenberg.jpg
Jens flytur áramótaávarpið

Forsætisráðherra konungsríkisins ræddi um það m.a. í áramótaávarpi sínu að hann vissi oft á tíðum ekki hvað börnin hans hefðust að í skólanum sínum. Hann sagði að óskipulega væri unnið. Alltof mikill tími færi í að skipuleggja starfið og sitja á fundum í stað þess að eyða meiri tíma í kennslustofunni með nemendunum. Þá taldi hann að með því að deila bekkjunum í smærri einingar þar sem hver hópur væri að vinna að mismunandi verkefnum, oft að eigin vali, gæti einfaldlega ekki gengið. Blessuð börnin hefðu hvorki þann þroska eða sjálfsaga til að geta verið svo sjálfstæð í náminu. Börn þurfa verkstjórn og læra rét vinnubrögð rétt eins og hver einast vinnandi maður.

Jens Stoltenberg lét sér þetta ekki nægja heldur bætti við að miklu meira þyrfti að taka til hendinni í menntamálaráðuneytinu en gert hefði verið í langan tíma. Hann sagðist sjálfur ætla bretta upp ermarnar og fara í gegnum hvað drengstaulinn, sem nú er menntamálaráðherra, væri eiginlega að bauka bak við skrifborðið sitt. Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan hann rak fyrsta menntamálaráðherrann í ríkistjórn sinni frá völdum fyrir lélegan árangur.

Þá hafa forráðamenn norska Vinnuveitendasambandsins lýst áhyggjum sínum yfir öllum ónothæfu tossunum sem útskrifast úr norskum grunnskólum. Fjórðungur þeirra flosnar upp úr framhaldsnámi á fyrsta vetri og fleiri fylgja á eftir eftir því sem árunum fjölgar. Þessir vesalingar, sem ekki ná sér í nothæfa undirstöðu fyrir þáttöku í atvinnulífinu, lenda oftast á örorkubótum löngu á undan forledrum sínum og jafnvel á undan öfum sínum og ömmum.
Það gefur auga leið að í stað þess að verða nýtir þjóðfélagsþegnar í góðum stöðum í stórfyrirtækjunum eru þessir vesalingar orðnir baggi á samfélaginu um leið og þeir hefja skólagöngu 5 ára gamlir. Vinnuveitendasambandið vill að allt verði gert til að hressa upp á skólanna með betri kennurum og markvissara námi.

Og ekki lét stuðningurinn við hugmyndir Vinnuveitendasambandsins á sér standa. Prófessor við Verslunarháskólann, BI, lýsti þeirri bráðsnjöllu hugmynd í útvarpi í gær launa ætti kennara eftir árangri í starfi. Þetta er ekki alveg ný hugmynd en það sem er nýtt hjá prófessornum er að hann kom með hugmynd um útfærslu á tillögu sinni. Þegar starf kennarans er metið til launa ber að taka tillit til árangurs nemenda hans á “landsprófum” yfir einhvern tíma. Síðan á skólastjóri að skoða niðurstöðuna og meta árangurinn og færa kennarana til í launastiganum eftir gengi nemenda sinna.

Ég hugsaði með mér þegar ég heyrði þessa speki á leið í skólann í morgun. “Hellvíti að þessi frábæra röðun í launaflokka kennara hafi ekki verið komin á Íslandi árið 1973.”

Advertisements

Barnið Fæddist Í Finnlandi

January 2, 2008

Norsku möppudýrin láta ekki að sér hæða. Norsk hjón, þar sem konan var ófrísk, brugðu sér til Finnlands í vor. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að á ferðalaginu varð konan léttari. Nákvæmlega eins og María sáluga frá Nasaret sem fæddi barnið á ferðalaginu í Betlehem. Sú norska fæddi 5 vikum fyrir tíman en ekki er neitt dokument til um það hvort eins var ástatt með Maríu.

En þegar norsku hjónin komu heim með barnið sitt lentu þau í vandræðum. Barnið var ekki í neinu vegabréfi. Það fannst engin stafur um það í norska kerfinu og því átti ekki að hleypa því inn í landið þrátt fyrir að foreldrarnir væru með pappíra í höndunum frá sjúkrahúsinu í Åbu um að móðirin hefði fætt barnið þar fyrir tíman.

Að lokum var þeim hleypt inn í Noreg og komust til síns heima í Troms fylki. Auðvitað glöddust þau yfir að vera komin heim með barnið og afar og ömmur, frændar og frænkur þustu að heimili hjónanna til að líta blessað barnið augum og fagna fæðingunni.

Foreldrarnir hugsuðu gott til glóðarinnar og ætluðu að láta skíra blessað barnið fljótlega eftir heimkomuna. Það reyndist þrautin þyngri. Þetta blessað barn var ekki tilí Noregi og því ekki hægt að skíra það og taka það inn í hinn kristna söfnuð.

Nú hófst sannkölluð píslarganga milli stofnana til að fá barnið á þjóðskrá í konungsríkinu. Í þrjá mánuði röltu foreldrarnir frá einni stofnuninni til annarrar til að reyna að fá barnið viðurkennt sem norskan ríkisborgara svo hægt væri að skira það. Einn vísaði á annan og engin tók ábyrgð og þaðan af síður hjálpaði foreldrunum.

Það var ekki fyrr en fylkismaðurinn í Troms og fyrrum sjávarútvegsráðherra, Sveinn Lúðvíksson, fékk vita um málið að eitthvað gerðist. Han skammaði mömmudýrin og sagð að það minnsta sem þau ættu að gera væri að beita þeirri skynsemi sem guð hafi gefið þeim til að leysa svona málí stað þess að þvæla fólki á milli stofnanna sem ekkert vilja aðhafast.

Svenni lét ekki orðin tóm standa heldur tók málið í sínar hendur og nú hlakka foreldrarnir til þess að láta skíra litla barnið sitt þann 2. desember nk. Við óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju.

Þessi stutta saga er dæmigerð fyrir norsk skrifræði og hræðslu embættismanna við að axla ábyrgð.