Archive for the ‘Hrokagikkir’ category

Ráðherra í nauðvörn

April 17, 2006

logo.jpg
Eitt í dag og annað á morgun

Valgerður Sverrisdóttir fer mikinn, að vanda, á heimasíðu sinni í pistli sem hún kallar Upphrópanir stjórnarandstöðunnar, eitt í dag og annað á morgun. Svo sem ekkert ólíkt “já já og nei nei” framsóknarstimpinum. Pistillinn ber þess glöggt vitni að hann er skrifaður af stjórnmálamanni og ráðherra sem verið hefur í vörn allan sinn stjórnmálaferil án þess að hafa leitt hugan í eina einustu mínútu að sjálfsgagnrýni. Allt sem hún segir er eins og frá Guði komið en þeir sem ekki eru henni sammála eru vísir til að eyðileggja það guðdómlega samfélag sem framsóknarflokkurinn hefur byggt upp á valdaferli sínum.

Stóriðja er svo sem góðra gjalda verð og skilar að sjálfsögðu fjármagni inn í efnahagskerfið. En hvort stóriðjustefna íslenskra stjórnvalda er það besta sem fyrir íslenska hagkerfið hefur komið skal ósagt látið. Gæti best trúað að finnska aðferðin, hollur er heimafenginn baggi, hentaði betur á Íslandi en endalausar erlendar stóriðjuframkvæmdir. Þegar Finnar urðu fyrir mestu efnahagsáföllunum, við fall Sovétríkjanna, veðjuðu þeir á menntun og finnskt hugvit. Afraksturinn varð að gúmmískóverksmiðja, að nafni Nokia, varð brautryðjandi í samskiptatækni og á fáum árum verðmætasta fyrirtæki í Evrópu. Hvenær ætli Fjarðarálsverksmiðjann nái því?? Þetta ætti Valgerður að hafa í huga þegar og ef hún veltir vöngum yfir því hvað margir hugvitsmenn hafa gengið bónleiðir til búðar eftir að hafa fengið NEI, frá ríkisstýrðum lánastofnunum, við styrkumsóknum sínum til að þróa íslenskt hugvit.

Valgerður vill gjarnan eigna framsóknarflokknum heiðurinn af 90% húsnæðislánum. Brilljant hugmynd sem flokkurinn fékk fyrir kosningarnar 2003. Veit Valgerður ekki hvernig húsnæðislánum hefur verið háttað á Norðurlöndunum áratugum saman. “Þá gerðist það sem enginn hafði átt von á að viðskiptabankarnir hófu að veita lán á lægri vöxtum en áður þekktist til íbúðakaupa”, skrifar Valgerður. Hvernig getur það komið stjónmálamanni, í frjálsu landi en ekki sovéti, á óvart að frjálsir bankar veiti “sovétskum” steinrunnum íbúðalánasjóði samkeppni. Ef það kemur Valgerði á óvart um hvað hefur hún og flokkur hennar verið að hugsa það sem af er 21. öldinni. Alla vega ekki um nýjungar í húsnæðislánum. Bara um breytingar á lánaprósentunni. Afleiðingin er sú að húsnæðisverð rauk upp úr öllu valdi og langt upp fyrir raungildi sitt vegna þess að innrás einkabankanna kom ríkisstjórninni á óvart. Ekki í eina skiptið sem stjórnin hefur verið tekin í bólinu með náttbuxuranr á hælunum.

“Sameinuðu þjóðirnar setja Ísland í annað sæti þegar mæld eru lífskjör þegnanna”. Það er gott að geta barið sér á brjóst yfir lífskjaraniðurröðun SÞ. En hvar ætli Ísland væri í röðinni ef SÞ mældi tímann sem tekur vinna fyrir bensínlítranum, mjólkurlítranum, eða því sem í potta og pönnur er ætlað. Það er það sem skiptir einstaklingana máli en ekki í hvaða sæti á einhverjum listum landið er.

Það þýðir lítið fyrir Valgerði að kenna erlendum bönkum og greiningu þeirra á óförum íslenska hagkerfisins í byrjun ársins. Flestar greinigardeildir eru sammála stjórnendum útflutningsatvinnuveganna um alltof hátt gengi krónunnar. Það er engum útlendingum að kenna heldur íslenskum stjórnvöldum einum sem sváfu á verðinum. 20% gengisfall frá áramótum er ekkert gengissig að hætti Ólafs ,sáluga, Jóhannessonar.

“Það mundu hins vegar ýmsir fórna höndum á innlendum og erlendum greiningardeildum ef að stjórnarandstaðan næði hér völdum. Þá yrði sko hægt að tala um frjálst fall”. Segir ekki þessi síðasta tilvitnun allt sem sega þarf um sjálfhælni og hroka stjónmálamanns sem ekki getur varið málsstað sinn með málefnalegri umræðu.

Advertisements

Afhommun af himnum ofan

March 27, 2006

Biskup.jpgBiskupinn í Ósló, Ole Chr. Kvarme, sem vill afhomma samkynhneigða.
Nú er þar til máls að taka að biskupinn í Ósló sér hélt ræðu um helgina þar sem hann þar sem hann tíundaði að vel mætti lækna homma og lespíur af ónáttúru sinni. Hann tók þar með undir með síðasta kirkjumálaráðherra Noregs sem sagði í sjónvarpsumræðum fyrir tveimur árum að vel mætti afhomma samkynhneigða. Hún, ráðherrann fyrrverandi, sagðist sjálf þekkja fyrrverandi samkynhneigða sem hefðu látið af “kynvillu” sinni eftir fyrirbænir.

Nú í kvöld var svo umræðuþáttur á TV2 þar sem ummæli biskupsins voru eina umræðuefnið. Að sjáfsögðu mætti hann ekki sjálfur í þáttinn en sendi sannkristin svein sem hélt uppi málsvörnum fyrir staðhæfingar biskups. Sá ítrekaði enn og aftur að lækna mætti kynvillu. Því til staðfestingar sagði hann frá því að Biblían greindi frá mörgum kraftaverkum og að tími þeirra þyrfti ekki að vera úti enn sem komið er. Hann sagði ekkert því til fyrirstöðu að biðja til almættisins sér til lækningar af samkynhneigð því það væri alls ekki útilokað að drottinn bænheyrði sanntrúaða kynvillinga og gerði á þeim kraftaverk.

Þar höfum við það. Kraftaverk af himnum ofan eru rétta lyfið við samkynhneigð

En það sem hvorki ráðherrann fyrrverandi, núverandi biskup og alls ekki skósveinn hans hafa athugað er hvort samkynhneigðir, sem mörgum líður afskaplega vel í sínum samböndum, hafa einhvern áhuga á lækningu frá himnum. Þeim finnst örugglega að þeir séu ekkert veilli fyrir en ráðherrann, biskupinn eða skósveinninn og aðrir þeir sem hafa sömu kynhneigð og tríóið telur drottni þóknanlegt.

Skítabombur og skíthælar

January 26, 2006

Össur Skarphéðinsson skrifar á heimasíðu sinni grein undir heitinu “Skítabrellur og óþverrabrögð” Þar spjallar hann um þegar leiða átti “litlu sjónvarpsstjörnuna,” Gísla Martein, til slátrunar í umræðuþætti á Stöð 2.

Hann gerir einnig að umræðuefni lúalega aðferð framsóknarmanna til að eyðileggja borgarstjórnarframboð flokksfélaga síns, Björns Inga Hrafnsonar, sem skyndilega er orðin að vonarstirni í framsóknarfjósinu. Skil ekki hvað góður og geng KR-ingur hefur að sækja til framsóknar.

Það eru margar skítabomburnar í pólitíkinni. Flestar eru meinlausar og afhjúpa þá sem beita þeim. Slíkar skítabombur geta verið broslegar á stundum. Aðrar eru afar ógeðfelldar og koma þeim illa sem fyrir þeim verða.

Ein er sú skítabomba sem er verri en aðrar bombur með skítafyllingu. Sú bomba heitir Framsóknarflokkur. Það er með eindæmum hvað framsóknarmenn geta lagst lágt til að koma höggi á flokksfélaga sína þegar þeim finnst þeir þvælast fyrir sér. Óþverrabragðið gegn Birni Inga og sú ljóta rógsherferð sem henni fylgir er nýjasta dæmið.

Annað ferskt dæmi um innræti framsóknarfólks er yfirstandandi ófrægingarherferð gegn Kristni Gunnarsyni alþingismanni að vestan. “Áhrifalaus kommi” er hann kallaður af skagfirskum miðstjórnarmeðlimi.

Framkoma formanns flokksins gagnvart Siv Friðbleifsdóttur og Jónínu Bjartmarz er og verður skítablettur á smetti flokksins sem erftitt verður að þvo burt.

En ljósasta dæmið um virðingu framsóknarmanna fyrir landslögum og fólkinu í landinu er sú dæmalausa ósvífni sem Árni Magnússon er merkisberi fyrir. Með ólíkindum að formaður framsóknarflokksinis og forsætisráðherra skuli eki hafa sparkað félagsmálaráðherranum úr ríkistjórninni eftir handabaksvinnubrögð haustsins. Hvergi á Norðurlöndunum hefði ráðherra verið sætt eftir að hafa brotið lögin með jafn afgerandi hætti og Árni Magnússon.

Get ekki ímyndað mér annað en fjölskylda ráðherrans hefði orðið stolt af stráknum hefði hann axlað ábyrgðina og sagt af sér sjálfur. Þess í stað horfir hún upp á að Árni er einhver mesti skíthæll sem setið hefur í ríkistjórn lýðveldisins Íslands frá upphafi.