Archive for June 2007

Hákon Haraldson bóndi og prins

June 24, 2007

Hákon prins og Mette Marit kona hans búa stórbúi á Skaugum setrinu við Asker. Alla vega ef miðað er við hvaða bændur það eru sem fá mest úthlutað af styrkjum til landbúnaðarframleiðslu. Þar eru þau nr 220 í röðinni af þeim sem mest fá. Fyrir árið 2006 fengu þau 557.321 nkr. Í styrk til að halda framleiðslunni gangandi.

Á Skaugum framleiða þau bæði hafra og bygg auk hveitis. Einhvern slatta af beljum eru þau með í fjósinu því mjólkurframleiðslan var 219.508 lítrar á síðasta ári. Annars telur búpeningurinn á Skaugum allur um 130 hausa og þar sem prinsinn er oft tímabundinn við önnur störf þarf hann örugglega á einhverju vinnufólki að halda svo það er sjálfsagt eðlilegt að hann þurfi á styrknum að halda til að halda búskapnum gangandi.

En það gæti örugglega verið gaman fyrir unga stráka að komast í sveit hjá Hákoni og Mettu Marit.

Þá eru bæði fyrrverandi og núverandi landbúnaðarráðherrar meðal styrkþega. Sá fyrrverandi Lars Sponheim fékk eitthvert lítilræði en hann er nú bara með 100 rollur á fóðrum auk nokkurra íslenskra hesta. En núverandi ráðherra rekur myndarbú með konu sinni í grennd við bæinn Skien í Þelamerkurfylki. Þar stundar hann búskap með bæði fé á fæti og skógarhögg. Til að liðka fyrir rekstri búsins fær hann nú 294.670 nkr í styrk sem hann veitir sjálfur.

Advertisements