Archive for February 2006

Vefþjóðviljinn og doðasýki

February 27, 2006

“Við gerum okkar besta til að blaðið sé eins ólíkt Þjóðviljanum heitnum og mögulegt er.
Við minnum einnig á að einungis einstaklingar hafa vilja – ekki þjóðir”.

Þetta er sítat úr haus Vefþjóðviljans. Og að hluta til er þetta laukrétt fullyrðing. Vefþjóðviljinn er afar ólíkur Þjóðviljanum heitnum. Í fyrsta lagi er Vefþjóðviljinn ekki nándar nærri eins skemmtilegur. Stuttbuxnanöldur getur aldrei náð því að verða skemmtilegt meðan innræting gamla Þjóðviljans var oft á tíðum bráðskemmtileg. Í öðrulagi er umfjöllun Vefþjóðviljans oft á tíðum afar einfeldningsleg. Gott dæmi um einfeldnina er Helgarsprokið frá 26. feb. 2006 og enn átakanlegri er umfjöllunin frá deginum í dag um Stefán Ólafsson. Svo máttlaus er umfjöllunin að maður gæti haldið að doðasjúkir fjósamenn úr framsóknarfjósinu stýrðu tökkunum á lyklaborðinu.

Ég geri það stundum að gamni mínu, í von um að finna kröftuga og gagnrýna umræðu, að líta við á Vefþjóðviljanum. Ég vil ekki gefasat upp. Frekar að lifa í voninni um að stuttbuxnaritlingarnir á ritstjórninni klæði sig nú í almennilegar síðbuxur og taki málefnalega á því sem þeim dettur í hug að bjóða lesendum sínum upp á. Eins og Mánudagsblaðið gerði á sínum tíma.

PS. Þjóðir eru mengi einstaklinga. Vilji meirihlutans getur því talist þjóðvilji. Ritlingarnir sem gera sitt besta til að hafa Vefþjóðviljan eins ólíkan þjóðviljanum, sáluga, tekst vel upp. Þeir þurfa örugglega ekkert að hafa fyrir því. Þeir eru bara svona.

Advertisements

Skógminjasafnið, grillveislan og muslimarnir

February 27, 2006

Á vordögum í fyrra var ákveðið að fara með 6. árganginn í Lakkegötu Skóla í skoðunar og skemmtiferð í Skógminjasafnið í Elverum í Heiðmörku. Þetta er hið skemmtilegasta safn að skoða og starfsfólkið þar skipuleggur fína dagskrá fyrir hina margvíslegu hópa. Allt miðast þetta við að ganga um svæðið sjá og taka þátt í hinum ýmsu leikjum, svo sem að skjóta ör af bogastreng að hætti Gunnars og sjálfsögðu að kynna sér hinn forna atvinnuveg, skógarhögg.
NATURSKOLEN_2006.jpg
Góð aðstaða er til útiveisluhalda í safninu sem býður gestum sínum afnot að útigrilli einu miklu, eða réttara sagt nokkrum íturvöxnum kolagrillum. Að sjálfsögðu hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar og ætluðum okkur að halda grillveislu í lok dagsins þannig að allri færu vel mettir og angurværir í rútuna á leiðinni heim. Börnin fóru með dreifimiða heim þar sem þessi för okkar ásamt grillveislunni var tíunduð með góðum fyrirvara. Bjuggumst við ekki við neinu öðru en breiðu brosi frá bæði börnum og foreldrum fyrir þessa framtaksemi okkar.

Nei og nei. Ekki voru allir jafn sáttir við uppátækið. Að venju voru það muslimskir foreldrar sem settu niður fótinn og vildu íhuga ferðina betur svo tryggt væri að trú barna þeirra yrði nú ekki stefnt í voða með grísakjötsáti. Það stóð reyndar aldrei til. Við höfðum gert samkomulag við hal al kjötkaupmann um kaup á veislumatnum og sá hafði að sjálfsögðu ekki grísakjöt á boðstólnum. Foreldrunum datt náttúrulega ekki í hug að kennarar skólans byggju yfir þeirri miklu fyrirhyggju sem við þóttumst hafa sýnt. En nú sem þetta var öllum lýðnum ljóst töldum við að nú væru allir vegir færir. Ferðin var undirbúinn daginn áður en lagt var að stað og börnin geisluðu af gleði af tilhlökkun einni saman.

En blindskerin leynast víða. Þannig var það í okkar tilfelli. Morguninn sem við ætluðum að leggja af stað voru foreldrar nokkurra barna mætt á svæðið með undirskriftalista þar sem krafist var að heilsu barna þeirra, er undir höfðu skrifað, yrði ekki stefnt í hættu með því að láta þau borða kjöt sem grillað væri á grilli sem áður hefði verið notað til að grilla óhreint grísakjöt. Ef við gætum ekki tryggt það væri okkur ekki treystandi fyrir börnunum og þau færu hvergi. Þar með leit út fyrir að rúmlega helmingurinn af hópnum sæti heima og við það var að sjálfsögðu ekki unað. Því ákváðum við kennararnir að við myndum bara kaupa einnota grill sem muslimarnir gátu þá fengið að nota fyrir sitt hal al. Það var samþykkt af foreldraráðinu á gangstéttinni með því skilyrði að einn úr þeirra hópi færi með okkur í ferðina. Fyrir valinu varð að sjálfsögðu karl. Sá talaði ekki stakt orð í öðrum máli en urdu. Það var því ekki lítið skondið þegar við létum hann koma safnvörðunum í skilning um að börnin, sem hann bar ábyrgð á, þyrfti að fá undanþágu fyrir notkun á einnota grillunum þar sem notkun slíkra grilla er harðbönnuð í safninu. Eftir mikið handapat og þó nokkur háreysti létu safnverðirnir undan og allir fengu að grilla matinn sinn eins og þeir vildu.

Allt er gott sem endar vel.

Þá er friðurinn úti

February 27, 2006

Þá er friðurinn endanlega úti. Vetrarfríið búið og hversdagurinn tekinn við. Svosemm ágætt útaf fyrir sig. Nú styttist í páskafríð. Snjórinn er farinn að bráðna undan geislum síhækkandi sólar og skíma kl. 06:45 þegar maður ekur til vinnu.

Annars tókum við okkur ferð á hendur til Svíþjóðar á föstudaginn. Aðalega til að kaupa kaffi og ost. Sannleikurinn er nefninlega sá bæði osturinn og kaffið sem við kaupum í Svíaríki eru munaðarvörur miðað við ruslið sem norskir kaupmenn bjóða uppá. Kaffið er vont og osturinn eins og dagblöð á bragðið.

Tókum svo við bátinn frá Strömstad til Sandefjord og heimsóttum Bakerhjónin þar í bæ, Lúlla og Kollu. Alltaf hressandi að hitta þau. Annars er nokkuð stórt Íslendingasamfélag í þessum forna hvalveiðibæ í Vestfold. M.a gekk Gunnar á Hlíðarenda þar um grundir fyrir rúmlega 1000 árum. Svo það er allnokkuð síðan Íslendingar hófu að venja komur sínar til Vestfold. Enda voru þar fyrstu bæjarmyndanir í Noregi, Túnsberg og Kaupangur og Sandefjörd er á milli þessara bæja. Reyndar er ekki Kaupangur til sem sjálfstæður bær lengur en það er Tönbsberg aftur á móti. Bæði Tönsberg og Sandefjörd eru hreinræktaðir paradísarsumarleyfisdvalarstaðir (flott orð) og iða af lífi yfir sumarið. Vestfold er minnsta fylkið í Noregi en hefur kanski upp á einna mest að bjóða. Frábær söfn og ótrúlega notalegt umhverfi. Þar eru einnig höfuðstöðvar Simrad sem hver einasti íslenskur sjómaður þekkir.

En nú er það sem sagt hversdagurinn sem er tekinn við. Með muslimum, hindúum taoistum og andatrúarfólki. Get sagt ykkur að það er ekki erfitt að koma á stað spennandi umræðum hér í Lakkegöta Skóla. Skiptir engu máli hvort er í kennslustofunum eða kennarastofunni. Maður þarf bara ákveða sig hverjum maður ætlar að hleypa upp í dag.

Nú falla öll vötn til stærðfræðistofunnar

February 22, 2006

Rannsóknir á norskum grunnskólum hafa leitt í ljós að stærðfræðikunnátta nemenda við lok grunnskóla er með því lakasta sem þekkist á byggðu bóli í Norður Evrópu. Þegar stjórrnmálamenn áttuðu sig á þessari leiðu staðreynd gripu þeir til þess ráðs að lokka kennaranema til að taka sér m.a. stærðfræði sem valfag. Þetta hefur tekist með þeim ágætum að nú leggja rúmlea 500 kennaranemar stund á sérmenntun í stærðfræðikennslu.

Hver ætli ástæðan sé fyrir þessari kúvendingu í vinsældum stærðfræðinnar meðal kennaranema í Noregi. Jú. Hún er einföld. Stærðfræðikennurum var nefninlega lofað hærri launum af Bondevik stjórninni. Þar fyrir utan hafa þeir meiri möguleika á vel launuðum störfum utan kennslustofunnar en kennarar með t.d. grasafræði sem valfag. Buddan segir jú sitt þegar línurnar eru lagðar fyrir farsælli framtíð

Vetrarfrí

February 21, 2006

Vetur í Nannestad 6.JPG
Vetrarfrí. Hvað getur kennari óskað sér sem toppar það. Náttúrulega ekki neitt. Laus við krakkagrislingana og geta bara dundað sér við að lesa, horfa út um gluggan og njóta veðurblíðunnar. Loksins er hann hættur að snjóa. Í bili allavega. Brostinn á með sól og blíðu og nú sér maður fjölda manna skríðandi upp á þak með skóflu og forða því að þökin hrynji undan snjóþunganum. Þess má geta að hér á Stór-Gjerdrum svæðinu er næst mesti snjór síðan mælingar hófust. Rúmlega 60 cm jafnfallinn snjór.

Ég nenni ekki með rekuna upp á þak. Þess í stað sit ég með æfisögu hljómsveitarinnar The Kinks. Fróðleg lesning það. Vissi svo sem að hljómsveitin var ekki nein KFUM stúka en að illindin hafi verið jafn öflug innan bandsins og bókin segir kemur mér á óvart. Þeir gátu ekki ferðast á milli tónleika í sama farartæki bræðurnir Davis.

Nóg um það. En mikið vildi ég að starfsbræður mínir og systur á Íslandi gætu notið þess að fá bæði haustfrí og vetrarfrí eins og við hérna í Noregi, Svíþjóð og Danmörku og sjálfsagt allsstaðar meðal siðmenntaðra þjóða.

Megi Þorgerður fá viturn og snúa sér að því sem henni hefur verið trúað fyrir. Að hugsa um velferð nemenda og kennara á Íslandi.

Ónothæfur markakóngur

February 21, 2006

Brattbakk.jpg
Harald Maritn Brattbakk, margfaldur landslismaður og markakóngur í norsku úrvalsdeildinni, með 166 mörk, var í gær rekinn frá félagi sínu, Rosenborg. Matthías Högmo, þjáfari RBK, sagði í gær að félagið hefði nóg af framherjum í leikmannahópi sínum nú og eftir að Steffen Iversen gekk til liðs við félagið væru ekki not lengur fyrir hinn 34 gamla Brattbak. Hann segir að yngri leikmenn fái að reyna sig í næstu leiktíð og því hafi Harald Martin verið leystur undan samningi sínum.

Þá er hinn aðal framherji RBK, Frode Johnsen, hugsanlega á leið frá félaginu. Bæði Brann og Odd Grenland berjast um að fá Johnsen í sínar raðir. Frode er metinn á 4 – 5 milljónir nkr og fari svo að hann gangi í raðir Brann hefur félagið eytt á 6. hundruð milljónum í leikmenn síðustu 3 árin.
Frode Johnsen.jpg
Í ljósi þess er gaman að velta fyrir sér frammistöðu KR gegn Brann á La Manga í gær. Teitur Þórðarson, þjálfari KR, þjálfaði nefninlega Bran fyrir nokkrum árum. Þá var félagið í miklum fjárhgaskröggum og þurfti að selja marga af sínum bestu leikmönnum. Á tveimur árum missti Teitur 14 leikmenn og afleiðingin var sú að liðið féll úr öðru sæti deildarinnar niður í grjótharða baráttu um að halda sér í deildinni. Það tókst eftir umspil við Sandefjord. Nú, á síðustu tveimur árum, hefur Brann eytt ámóta miklum peningum í leikmenn eins og KR hefur úr að moða á 7 – 8 árum.

Meðal leikmanna sem Teitur mátti sjá af eru Azar Karadaz, Portsmouth og landsliðið, Torstein Helstad, RBK og landsliðið, Alex Valensia, Start og landsliðið, Raymond Kvisvik, Fredrikstad og landsliðið.

KRÖM

February 20, 2006

Þessi saga er ekki úr skólastofunni en af kennarastofunni.

Í Túninu heima var öflugur félagsskapur er bar nafnið KRÖM. Félgar voru karlkynsstarfsmenn í TH. Einu sinni í mánuði voru haldnar samkomur í KRÖM. Þær fóru fram við hringlaga borð innst til hægri á kennarastofunni í löngu frímínútnum. Að sjálfsögðu var formleg dagsskrá á hverri samkundu og var einum eða tveimur félagsmönnum falið að bera ábyrgð dagskránni hverju sinni.

Nærföt.jpg
Íþróttakennari pilta var hugmyndaríkur og voru fundirnir með líflegra móti þegar hann sá um dagskrána. Má þar nefna að einn daginn kynti hann efnislítinn kvennærfatnað og taldi okkur félögunum trú um að það væri bæði holt og skemmtilegt að fjárfesta í þessum klæðnaði og færa betri helmingnum er heim kæmi. Máli sínu til stuðnings veifaði hann rauðum blúndunærbuxum og sagði hverja konu æsta að eignast slíka flík. Meðan á kynningu írþóttakennarans stóð gjóuðu stúlkukindurnar í kennaraliðinu augunum oft að hægra horni kennarasatofunnar. Sumar stóðu upp til að sjá betur hvað fram færi en allar sýndu þær okkur þá tillitsemi og virðingu að láta okkur í friði.

Það breyttist þó á næstu samkomu. Það var nefninlega þannig að til þess að toppa hina sexý kyninngu íþróttakennarans á nærfötunum var brugðið á það ráð að kynna hjálpartæki ástarlífsins sem fengin voru að láni í erótískri búð sem bar nafnið Rómeó og Júlía, minnir mig. Einhvern veginn hafði þessi kynning spurst út fyrir skólans dyr áður hen til hennar var stofnað. Þáttagerðakona frá Ríksútvarpinu mætti nefninlega á staðin og tók viðtöl við Kramverja sem lýstu tækjunum fjálglega og af mikilli gleði.
Dildo.jpg
Það var ekki jafn mikil gleði í hinum enda kennarastofunnar. Nú risu valkyrjurnar upp og var nóg boðið að fá ekki að vera með á þessari kynningu. Og það voru fleiri sem risu upp og sögðu hingað og ekki lengra. Sjálfur skólastjórinn mætti á svæðið og tók að sjálfsögðu málstað með kennslukonunum sem töldu sig órétti beittar. Þessi tæki voru þeim náttútulega jafn nauðsynlegur gleðigjafi og körlunum. En hvað um það. Stjóri leysti upp samkomuna rak þáttagerðakonuna á dyr og okkur til kennslu.