Væluskjóður nútímans

Kennarar og umönnunarstéttir eru væluskjóður samtímans.  Alla vega ef marka má skýrslu danska prófessorsins, Tage Söndergåd Kristensen. Þar kemur nefnilega fram að starfsfólk í dæmigerðum kvennastörfum eins og kennarar og þeir sem vinna með skjólstæðinga almannatrygginga ásamt opinberum starfsmönnu eru þeir sem kvarta mest undan miklu vinnuálagi, stressi og lágum launum.  Prófessorinn segir þessar stéttir drekkja sér í sjálfsvorkunn.

En vælið virðist bera árangur.  Það eru nefnilega þessar sömu stéttir sem njóta mestra samúðar í samfélaginu þó virðingin fyrir þeim fari þverrandi. Hann segir að þegar hann spjalli við kennara og hjúkrunarfræðinga, bak við lokaðar dyr, viðurkenndu þeir niðurstöður hans.

Marianne Krogh, trúnaðarmaður kennara í Sköyen skóla í Ósló, er ekki alveg sammála Dananum um að hún og starfsfélagar hennar séu jafn miklar barlómar og hann vill vera láta en viðurkennir þó að kennarar og aðrar umönnunarstéttir velti sér kannski of mikið upp úr vandamálum sínum.   Hún segir að margir kennarar starfi í niðurnýddu skólahúsnæði og skólarnir hafi ekki efni á að kaupa kennslubækur handa nemendum sínum.  Það sé þreytandi að vinna við slíkar aðstæður með handónýtar kennslubækur.    

Það eru kennarar sem bera ábyrgð á því að börnin fái það með sér úr skólanum sem þeim er gert að kenna þeim lögum samkvæmt.  Það getur hins vegar oft verið erfitt þegar kennarar hafa ekkert til að kenna eftir.  Ofan á allt annað er alltaf verið að bæta vinnu við skýrslugerðir og fylla út allskonar eyðublöð auk sífelldum fundum sem draga úr afköstum kennarans í skólastofunni.

Krogh segir að nú sé komið nóg af svo góðu.  Hún segir að í Sköyen skóla sé nú markvisst unnið að því að leysa vandamálin og draga úr ergelsi og vonbrigðum kennara.

Elisabet Dahle hjá einu af norsku kennarasamtökunum segir að oft megi lýsa kennurum sem nöldrurum.   Hún kennir um auknu vinnuálagi vegna grundvallabreytinga á skiptingu vinnutíma kennara.  Hún segir að það sé erfitt fyrir kennara að ganga til starfa dag hvern vitandi að þeir hafi ekki nokkra möguleika á að skila þeim gæðum í skólastofunni sem þeir vildu vegna skorts á tíma og nothæfum kennslugögnum.  Hún segir þetta vera bæði persónulegan og faglegan klafa á kennurunum.

Dahle segir að kennarar verði að koma boðskap sínum betur á framfæri í stað þess að væla sífellt um vandamálin.

Kennarar hafa gert sjálfa sig að fórnarlömbum.

·        Þeir verða sífellt meira fyrir ofbeldi frá nemendum og foreldrum

·        Aukið eftirlit og skriffinska ásamt fundahöldum er að kæfa kennsluna

·        Miklar breytingar á skólastarfinu síðustu árin

Látum danska prófessorinn hafa síðast orðið. ”Kennarar einblína alltof mikið á að þeir séu of fáliðaðir í skólunum til að skila þeim gæðum í starfinu sem af þeim er krafist.  Þeir verða að beita meiri herkænsku  í boðskap sínum og  mæta kröfum samfélagsins um aukin gæði skólanna.  Ef kennarar hefðu nýtt tíma sinn í að gera skólann betri í stað þess að væla um vandamál sín yrði bæði eftirlitið með þeim og gagnrýnin á þá minni en í dag”.   

Explore posts in the same categories: Almennt

3 Comments on “Væluskjóður nútímans”

  1. Guðný Anna Says:

    Hæ, hæ!
    Mikið assgoti er gaman að lesa þetta. Ég get tekið undir þetta í stórum dráttum. Hins vegar finnst mér merkilegur þjóðarmismunur varðandi almenn nagg, nöldur og leiðindi fólks í daglegu lífi & starfi: Danir eru manna verstir þegar kemur að slíkum fyrirbærum. Allt svo erfitt, hefði getað verið svo miklu betra, þeir eiga svo bágt og allir aðrir hafa fengið svo miklu meira. Svo eru þeir svo þreyttir, svo þreyttir. Þetta er lifandi ljómandi leiðinlegt og þykir karaktergalli á Íslandi.
    Annars, góðar kveðjur til þín og þinna, kæri vin!

  2. hemmi Says:

    Bloggaðu!!!!!!!!!

  3. Guðný Anna Says:

    Hurru, þú kemst ekkert upp með að hverfa bara af blogginu. Dunni, Dunni, heyrirðu í mér?


Leave a reply to Guðný Anna Cancel reply