Archive for the ‘Fjölmiðlar’ category

Barnið Fæddist Í Finnlandi

January 2, 2008

Norsku möppudýrin láta ekki að sér hæða. Norsk hjón, þar sem konan var ófrísk, brugðu sér til Finnlands í vor. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að á ferðalaginu varð konan léttari. Nákvæmlega eins og María sáluga frá Nasaret sem fæddi barnið á ferðalaginu í Betlehem. Sú norska fæddi 5 vikum fyrir tíman en ekki er neitt dokument til um það hvort eins var ástatt með Maríu.

En þegar norsku hjónin komu heim með barnið sitt lentu þau í vandræðum. Barnið var ekki í neinu vegabréfi. Það fannst engin stafur um það í norska kerfinu og því átti ekki að hleypa því inn í landið þrátt fyrir að foreldrarnir væru með pappíra í höndunum frá sjúkrahúsinu í Åbu um að móðirin hefði fætt barnið þar fyrir tíman.

Að lokum var þeim hleypt inn í Noreg og komust til síns heima í Troms fylki. Auðvitað glöddust þau yfir að vera komin heim með barnið og afar og ömmur, frændar og frænkur þustu að heimili hjónanna til að líta blessað barnið augum og fagna fæðingunni.

Foreldrarnir hugsuðu gott til glóðarinnar og ætluðu að láta skíra blessað barnið fljótlega eftir heimkomuna. Það reyndist þrautin þyngri. Þetta blessað barn var ekki tilí Noregi og því ekki hægt að skíra það og taka það inn í hinn kristna söfnuð.

Nú hófst sannkölluð píslarganga milli stofnana til að fá barnið á þjóðskrá í konungsríkinu. Í þrjá mánuði röltu foreldrarnir frá einni stofnuninni til annarrar til að reyna að fá barnið viðurkennt sem norskan ríkisborgara svo hægt væri að skira það. Einn vísaði á annan og engin tók ábyrgð og þaðan af síður hjálpaði foreldrunum.

Það var ekki fyrr en fylkismaðurinn í Troms og fyrrum sjávarútvegsráðherra, Sveinn Lúðvíksson, fékk vita um málið að eitthvað gerðist. Han skammaði mömmudýrin og sagð að það minnsta sem þau ættu að gera væri að beita þeirri skynsemi sem guð hafi gefið þeim til að leysa svona málí stað þess að þvæla fólki á milli stofnanna sem ekkert vilja aðhafast.

Svenni lét ekki orðin tóm standa heldur tók málið í sínar hendur og nú hlakka foreldrarnir til þess að láta skíra litla barnið sitt þann 2. desember nk. Við óskum þeim að sjálfsögðu til hamingju.

Þessi stutta saga er dæmigerð fyrir norsk skrifræði og hræðslu embættismanna við að axla ábyrgð.

Advertisements

Hræddir fjölmiðlar og Veraldarvefurinn

May 10, 2006

Las athyglisverða grein i Aftenposten um helgina. Þar fjallar lektor við norska verslunarháskólann, BI, um veraldarvefinn og óttaslegna fjölmiðlastjórnendur sem ekki sjá framtíð sína bjarta ef heldur fram sem hingað til með þróun netsins.

Undan farinn áratug hafa þau tæki og tól sem við notum til samksipta sífellt minnkað að ummáli, orðið ódýrari í innkaupum á sama tíma og notagildi þeirra og fjölbreytni hefur hefur aukist með risaskrefum á hverju árinu sem líður. Gömlu fjölmiðlarnir, útgáfufyrirtæki, blöð, sjónvarp, kvikmyndir og hljómpöltuframleiðendur hafa bara horft á þróunina með aðra höndina í vasanum og hina fyrir aftan bak. Þannig eru þeir að tapa stöðunni sem þeir höfðu um að segja okkur hvað er mikilvægt í veröldinni og hvað ekki. Ef þú átt góðan farsíma, hefur breiðband heima og átt þokkalega tölvu þarftu ekkert á “gamla dótinu” að halda.

Unga fólkið, sem er væntanlegur viðskiptahópur gömlu miðlanna, hefur tekið tæknina í sína þjónustu og oft aflað sér mun meiri þekkingar en stjórnendur í fjölmiðlabransanum getur órað fyrir. Nú sjá þeir að svo getur hæglega farið að þessi væntanlegi viðskiptahópur verði aldrei neinn viðskiptahópur. Og hvað þá???

Sá tími er liðinn að útgefendur geti varið sig gegn niðurhali af netinu með boðum, reglum og lögum. Tónlistarútgefendur þóttust himinn höndum hafa tekið þegar þeir settu læsingu á geisladiskana og gáfu síðan möguleika á að borga fyrir tónlistina gegnum farsíma. Þar með myndi tónlistarneytendur hætta að stela af netinu. Kennslubókahöfundar og útgefendur hafa bannað að kennarar fjölriti úr bókun sínum til nota í kennslustofunni. Allt er þetta bras þeirra til lítils. Ef kennara vantar kennsluefni sækir hann það sjálfur eða lætur nemendur sína sækja það á vefinn. Sama gildir um alla aðra útgefendur. Þeir geta einfaldelga ekki varið sig fyrir internetinu. Þess vegna þurfa þeir að taka það mun meira í þjónustu sína en en hingað til.

Það er líka liðin tíð að fólk noti tölvurnar sýnar eins og ritvélar með geymsluplássi. Nú er svo komið að maður þarf ekki lengur að eyða tíma í flokka efni og raða því í möppur því Google Desktop sér um það líka. Við gamlingjarnir sem enn erum að flokka og raða vel og vandlega í möppur svo að við verðum fljótari að finna það sem við ætlum að vinna með erum einfaldlega orðnir steinrunni. Það sem við erum ca eina mínútu að sækja kemur Google með á 1 – 2 sekúndum.

Enn er netið mest notað til að senda rafpóst og sækja upplýsingar. En notkunin verður æ fjölbreyttari. Við náum okkur í tónlist og kvikmyndir í auknu mæli, borgum reikninga, verslum á mun ódýrari hátt enn í Kaupfélaginu eða Bónus, gerum framtalið okkar og sendum á netinu eða jafnvel á sms og síðast en ekki síst bloggum við og spjöllum á spjallrásum með myndavélum og hljóði. Ekkert af þessu gátum við gert fyrir ca 15 árum. Þá mötuðu hinir fjölmiðlar okkur á því hvað var matur og hvað var moð. Nú greinum við sjálf moðið frá matnum.

Unga kynslóðin tekur hraðvirkari fjölmiðla fram yfir þá gömlu. Gömlu miðlarinr eru kærkomnir sem auglýsingar til þess að sækja svo kvikmyndir, tónlist og lestrarefni á netið. Ef dagblöðin halda áfram að hafa netúgáfur sínar sem vasaútgáfur með sýnishornum missa þau áhrifamátt sinn. Þó ég geti varla komist í gegnum einn dag án dagblaðs er kynslóðin á eftir minni ekki í sama báti. Hún kann nefninlega að nýta sér netið.

Ef stjórnendur hefðbundinna fjölmiðla helda áfram að verjast veraldarvefnum fer fyrir þeim eins og kirkjunni þegar Gutenberg hóf að prenta bækur. Þeir verða áhrifslausar stofnanir í nútíma samfélagi á nákvæmlega sama hátt og kirkjan missti einokun sína á að fóðra fólk á lífsgildum með tilkomu bókarinnar.

Vefþjóðviljinn og doðasýki

February 27, 2006

“Við gerum okkar besta til að blaðið sé eins ólíkt Þjóðviljanum heitnum og mögulegt er.
Við minnum einnig á að einungis einstaklingar hafa vilja – ekki þjóðir”.

Þetta er sítat úr haus Vefþjóðviljans. Og að hluta til er þetta laukrétt fullyrðing. Vefþjóðviljinn er afar ólíkur Þjóðviljanum heitnum. Í fyrsta lagi er Vefþjóðviljinn ekki nándar nærri eins skemmtilegur. Stuttbuxnanöldur getur aldrei náð því að verða skemmtilegt meðan innræting gamla Þjóðviljans var oft á tíðum bráðskemmtileg. Í öðrulagi er umfjöllun Vefþjóðviljans oft á tíðum afar einfeldningsleg. Gott dæmi um einfeldnina er Helgarsprokið frá 26. feb. 2006 og enn átakanlegri er umfjöllunin frá deginum í dag um Stefán Ólafsson. Svo máttlaus er umfjöllunin að maður gæti haldið að doðasjúkir fjósamenn úr framsóknarfjósinu stýrðu tökkunum á lyklaborðinu.

Ég geri það stundum að gamni mínu, í von um að finna kröftuga og gagnrýna umræðu, að líta við á Vefþjóðviljanum. Ég vil ekki gefasat upp. Frekar að lifa í voninni um að stuttbuxnaritlingarnir á ritstjórninni klæði sig nú í almennilegar síðbuxur og taki málefnalega á því sem þeim dettur í hug að bjóða lesendum sínum upp á. Eins og Mánudagsblaðið gerði á sínum tíma.

PS. Þjóðir eru mengi einstaklinga. Vilji meirihlutans getur því talist þjóðvilji. Ritlingarnir sem gera sitt besta til að hafa Vefþjóðviljan eins ólíkan þjóðviljanum, sáluga, tekst vel upp. Þeir þurfa örugglega ekkert að hafa fyrir því. Þeir eru bara svona.

Má ég þá biðja um Mánudagsblaðið

January 29, 2006

Sorpblöð og óþverramennska hafa alltaf verið til. Íslendingar hafa fengið sinn skammt af óþverranum í gegnum árin. Upp á síðkastið hafa blaðamenn og ritstjórar DV fengið að finna til tevatnsins fyrir framgöngu sína á ritvellinum. Illa þokkaðir ritstjórar tóku pokann sinn og yfirgáfu sökkvandi blað.

En DV er ekki eina sorpblaðið sem út hefur komið á Íslandi. Sú var tíðin að Mánudagsblaðið og Ný Vikutíðindi flutti þjóðinni safaríkasta slúðrið og akildu ósjaldan eftir djúpar rispur í mannorði svokallaðra betriborgara samfélagsins. Munurinn á DV og gömlu sorpblöðunum er samt æði mikill. Það var nefninlega oft gaman að lesa Mándugasblaðið og Ný Vikutíðindi. Um pennann héldu ritsnillingar sem höfðu frásagnarlist sem náðargáfu. Mergjaður texti og beitt gagnrýni á svindlara, óþokka, stjórnmálamenn og nánast allt sem ritstjórunum þótti ábótavant í samfélaginu. En bæði þessi blöð dóu með ritstjórum sínum. Því miður. Þeir áttu blöðin og skrifuðu nánast allt sjálfir sem þau sögðu frá.

Seinna kom svo Helgarpósturinn. Hann varð aldrei jafn skemmtilegur aflestrar eins og td Mánudagsblaðið. Það má líka til sanns vegar færa að hann hafi oriðið fyrstur til að ræna fólk æru sinni og mannorði og það með heinum lygum og aðdróttunum sem ekki stóðust ljós raunveruleikans. Hafskipsmálið er enn í fersku minni þar sem Helgarpóstuinn rændi fjóra athafnamenn ærunni. Sem betur fer kom þó sannleikurinn síðar ljós. Fjórmenningarnir fengu æruna til baka og geta enn hlegið en Helgarpósturinn dó.

Má ég þá biðja um Mánudagsblaðið